Gengi krónunnar veiktist um 0,58% í viðskiptum dagsins en gengisvísitalan stóð í 111,86 stigum við lokun markaða, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Þetta er fimmti viðskiptadagurinn í röð sem krónan veikist en alls nemur veikingin 3% frá 2. mars síðastliðnum.

Þegar litið er lengra aftur hefur títtnefnd króna lækkað um 6,8% frá áramótum og 11% frá fyrstu vikunni í nóvember þegar gengisvísitalan var í kringum 100,6.

Sú niðurstaða virðist því liggja í loftinu að styrkur krónunnar hafi nú þegar náð hámarki, segir greiningardeildin.

Það ætti ekki að koma á óvart í ljósi mikils viðskiptahalla sem mældist rúm 16% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári og stórfelldra fjárfestinga og verðbréfakaupa á erlendri grundu, einkum af hálfu lífeyrissjóðanna.

Við slíkar aðstæður þarf mikinn og jafnvel vaxandi vaxtamun við útlönd til þess að halda genginu háu. Hins vegar hefur saxast á vaxtamuninn að undarförnu vegna vaxtahækkana í helstu viðskiptalöndum, segir greiningardeildin.

Velta má fyrir sér hvort þær vaxtahækkanir sem enn er að vænta frá Seðlabanka Íslands muni gera meira en að halda greindum vaxtamun í horfinu.

Færa má rök fyrir því að hæg veiking krónunnar sé nú fremur heppileg, sérstaklega í ljósi þess að hagsveiflan er nú komin á það stig að brátt styttist að hún hnígi með tilheyrandi gengisaðlögun, segir greiningardeildin,

Hvað sem því líður bendir allt til þess að áhrif veikari krónu munu koma fram með aukinni verðbólgu á næstu mánuðum.