Farsímafyrirtækið Nokia hefur keypt allt hlutafé Enpocket, alþjóðlegs farsímamiðlunarfyrirtækis sem leggur áherslu á markaðssetningu og auglýsingar í gegnum farsíma. Kaupverðið er ekki gefið upp en í tilkynningu segir að fjárfestingarsjóðurinn Brú Venture Capital, sem var einn af fjórum stærstu hluthöfunum í Enpocket, innleysir umtalsverðan söluhagnað ásamt um 50 öðrum íslenskum hluthöfum.

Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri hjá Brú, segir í tilkynningu að salan sé gott dæmi um að nýsköpun borgi sig. ?Árangur Enpocket er afrakstur af kröftugu frumkvöðlastarfi hér á landi og það er fagnaðarefni að sjá menn fá afrakstur af vinnu sinni í formi umtalsverðs söluhagnaðar. Ég vona að þeir aðilar sem komu þessu verkefni af stað komi að fleiri nýsköpunarverkefnum með okkur.?

Brú eignaðist upphaflega hlut í Enpocket í gegnum Landmat. Landmat var sameinað Enpocket í október 2004 en fyrirtækið var stofnað 1999 og hafði náð góðum árangri í þróun margmiðlunarefnis fyrir farsíma. Margir stjórnarmenn og starfsmenn sem áttu hlut í Landmati eignuðust hlut í Enpocket við sameininguna.

Hugbúnaður Enpocket gerir viðskiptavinum kleift að senda kynningarefni til farsímaeigenda í skilgreindum markhópum. Meðal viðskiptavina Enpocket eru Vodafone, Cingular, Sprint, Verizon, Orange, Telefonica, Singtel, Nokia, Sony, BBC, Fox, Time Warner, Universal Pictures, Time Out, Match.com, Snapple, Levi?s, Hallmark og Nike.

Í tilkynningu frá Nokia segir að með kaupunum ætli félagið að ná forystu á sviði markaðssetningar og auglýsinga í gegnum farsíma.