Sjóðstýringafyrirtækið Stefnir, sem er dótturfélag Arion banka og hefur starfstöðvar í höfuðstöðvum bankans, greiddi starfsmönnum sínum kaupauka vegna reksturs síðasta árs. Fram kemur í ársreikningi Stefnis, sem er stærsta sjóðstýringafélag landsins, að áætlaður kaupauki vegna ársins 2012 nemi 52 milljónum króna auk launatengdra gjalda. Samtals voru 70,2 milljónir skuldfærðar vegna þessa. Starfsmenn Stefnis á síðasta ári voru að meðaltali 18 samanborið við 16 árið 2011. Laun og launatengd gjöld jukust gríðarlega milli ára, eða um 125 milljónir. Alls námu gjöldin rúmlega 420 milljónum í fyrra.

Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, vildi ekki segja hversu margir starfsmenn fái greidda kaupauka. Fram kemur í ársreikningi að laun fimm lykilstjórnenda námu samtals 89,4 milljónum króna á síðasta ári. Það jafngildir um 1,5 milljóna króna mánaðarlaunum að meðaltali. Arion banki, móðurfélag Stefnis, hefur ekki virkjað kaupaukakerfi en starfskjarastefna bankans leyfir þó slíkar greiðslur. Þegar Viðskiptablaðið spurðist fyrir um hvort ósamræmi væri milli móðurfélags og dótturfélags var bent á sjálfstæði Stefnis og að fjórir af fimm stjórnarmönnum séu óháðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.