*

fimmtudagur, 3. desember 2020
Innlent 15. júlí 2019 09:53

Fimmtungi færri ferðamenn en í fyrra

Í júní nam fækkun ferðamanna 17% frá fyrra ári, en gistinóttum fækkaði um 10%, mest í Airbnb, eða um 29% en 3% á hótelum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ferðamönnum fækkaði um 17% í júnímánuði í ár frá fyrra ári, úr 209 þúsund í 173 þúsund, en ef horft er til annars ársfjórðungs nemur fækkunin fimmtungi milli ára, úr 488 þúsund í 390 þúsund að því er Hagstofan greinir frá.

Gistinætur í júní voru 690.000 sé litið á allar tegundir gistinótta. Drógust þær saman um 10% borið saman við sama mánuð árið áður þegar þær voru 767 þúsund. Mestur samdráttur var á gistinóttum sem miðlað er gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður eða um 29%. Voru þær 89 þúsund í maí samanborið við 125 þúsund 2018.

Gistinætur á hótelum drógust einnig saman, þó einungis um 3%. Á sama tíma lækkaði nýtingarhlutfall hótelherbergja á landinu úr 58% niður í 56% og framboð hótelherbergja jókst um 13%, úr 9.200 herbergjum í 10.500 herbergi.

Yfir þriggja mánaða tímabil, mars til maí, hefur heildarfjöldi gistinótta á hótelum dregist saman um 3% borið saman við sama tímabil í fyrra á meðan gistinætur keyptar í gegnum vefsíður á borð við Airbnb hafa dregist saman um 14%.

Brottförum farþega frá Keflavíkurflugvelli fækkaði á sama þriggja mánaða tímabili um 12% og erlendum ferðamönnum fækkaði um tæplega 15%. Samkvæmt tölum ISAVIA fækkaði skiptifarþegum um 43% á sama tímabili. Á 2. ársfjórðungi hefur skiptifarþegum fækkað um 48% frá fyrra ári, frá tæplega 560 þúsund skiptifarþegum árið 2018 niður í 290 þúsund árið 2019.