Í mars síðastliðnum lönduðu íslensk fiskiskip 93,2 þúsund tonnum sem er 21% minni afli en í mars í fyrra að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Ástæðan fyrir samdrættinum skýrist af minni kolmunaafla, eða úr 65 þúsund tonnum í 38 þúsund tonn eða um 40%.

Hins vegar jókst botnfiskaflinn um 3% milli ára, og nam hann 53,4 þúsund tonnum, en þar af var þorskaflinn 32,9 þúsund tonn og jókst hann um 5% frá fyrra ári.

Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá apríl 2019 til mars 2020 var 990 þúsund tonn sem er 14% samdráttur miðað við sama tímabil árið áður. Afli í mars, metinn á föstu verðlagi, var 6,8% minni en í mars 2019.