*

föstudagur, 23. október 2020
Innlent 18. október 2020 18:01

Fimmtungi minni hagnaður hjá Lex

Lögmannsstofan Lex hagnaðist um 185 milljónir á síðasta ári en tekjurnar stóðu í stað meðan eiginfjárhlutfallið lækkaði.

Ritstjórn
Örn Gunnarsson er framkvæmdarstjóri LEX lögmannsstofu

Hagnaður lögmannsstofunnar Lex lækkaði um ríflega fimmtung á síðasta ári, úr 235 milljónum í tæpar 185 milljónir króna, þótt tekjurnar stæðu í stað í 1,2 milljörðum króna.

Rekstrargjöldin jukust um 5,8%, úr ríflega 938 milljónum í 993 milljónir króna. Þar af jukust laun og launatengd gjöld um 5,8%, úr 722 milljónum í 756 milljónir króna þó að starfsmönnum hafi fækkað um tvo að meðaltali frá 2018, í 45.

Rekstrarhagnaður lögmannsstofunnar (EBIT), lækkaði um rétt undir fimmtungi, úr 282 milljónum króna í 226 milljónir króna, en EBITDA félagsins lækkaði um litlu minna, eða úr 286 milljónum í 232 milljónir króna. Handbært fé lækkaði á árinu um 67 milljónir en lækkunin árið 2018 var rétt um 6 milljónir. Þar með fór handbært fé úr 105 milljónum í byrjun árs í 38 milljónir í lok þess.

Eigið fé lögmannsstofunnar lækkaði um 27% úr 300 milljónum í 220 milljónir á árinu, en skuldirnar lækkuðu sömuleiðis um 6,1%, úr 461 milljón í 433 milljónir. Þar með lækkuðu eignirnar um 14,3%, úr 761 milljón í 652 milljónir króna, og eiginfjárhlutfallið lækkaði sömuleiðis úr 39,4% í 33,7%.

Örn Gunnarsson er framkvæmdastjóri og einn 17 meðeiganda stofunnar, en stærstu hlutina eiga þau Óskar Sigurðsson, Ólafur Finnbogi Haraldsson, Lilja Jónasdóttir, Guðmundur Ingi Sigurðsson, Garðar Víðir Gunnarsson, Eyvindur Sveinn Sólnes og Arnar Þór Stefánsson, eða hver um sig 8,89%.