Gullsmíðameistari með verslanir í bæði miðborginni og verslanamiðstöðvum finnur fyrir samdrætti í desember, en mikilvægustu dagarnir eru þó eftir. Viðburðir draga fólk í verslanamiðstöðvarnar.

„Einn fjórði af ársölu okkar er í desember og þriðjungur af því kemur fyrstu vikurnar. Við erum hérna á Laugaveginum og svo bæði í Kringlunni og Smáralindinni, og það er því miður ekki hægt að bera þetta saman. Það er allt á niðurleið hérna á Laugaveginum, yfir 20% samdráttur á árinu.

Götulokunin nú er að bitna á okkur með meiri þunga heldur en síðustu ár, eftir að borgin sveik að opna 1. október, því miður, meðan það gengur vel í verslunarmiðstöðvunum, þar er fólkið, og vöxturinn þar nær að vega hitt upp," segir Jón Sigurjónsson í úra- og skartgripaversluninni Jón & Óskar sem segist þó finna fyrir nokkrum samdrætti það sem af er desember.

„Laugavegurinn er sérstaklega að tapa því við erum ekki lengur að fá Íslendingana sem hafa verið 80% viðskiptavina verslana sem hafa verið hér lengi og stílað inn á þá. Hjá túrista- og lundabúðunum og veitingastöðunum, sem eru að koma í staðinn, eru ferðamennirnir á móti kannski 80% viðskiptavinanna."

Jón segir mikinn missi af þeim gamalgrónu verslunum sem hafa verið að hverfa úr miðborginni síðustu ár en hann segist ekki hafa tekið eftir því að Hafnartorgið sé að trekkja fólk niður í bæ, a.m.k. ekki upp á Laugaveginn.

„Kaupmennirnir í þessum verslunum voru aðaldriffjöðrin í Laugavegssamtökunum sem náðu þegar þau voru öflug að koma ýmsum skemmtilegum uppákomum á koppinn hérna sem dró fólk að. Þar á meðal var okkur að þakka að samið var við Kók um að koma þessari umtöluðu jólalest á koppinn, að bandarískri fyrirmynd," segir Jón sem segir það mikinn missi að hún hafi ekki fengið að keyra niður Laugaveginn nú í fyrsta sinn.

„Borgin er búin að loka Laugaveginum varanlega fyrir bílaumferð þarna neðar og þrátt fyrir beiðni var ekki leyft að opna þó ekki nema í hálftíma í gegn, þó að Kóka kóla hefðu verið svo almennilegir að koma gagngert hingað niður eftir í fjölda ára. Þetta trekkti svo sannarlega að, gangstéttarnar voru fullar af fólki alveg upp úr og niður úr, þeir stoppuðu víða, spiluðu flotta tónlist, og myndaðist skemmtileg stemning. Þetta var eitt af því sem við gerðum til að trekkja fólk á Laugaveginn og var einn af okkar aðaldögum, sem auðvitað skilaði sér inn í verslanirnar og jók söluna. Í staðinn fór lestin bara Hringbrautina og Lækjargötuna og niður á Hörpu og ekkert fólk skilaði sér á Laugaveginn."

Jón segir að næstu dagar jólaverslunarinnar skipti kaupmenn á götunni sköpum. „Þorláksmessan hefur alla tíð verið aðaldagurinn fyrir gullsmiði og aðrar gjafavörubúðir hér. Síðustu þrír fjórir dagarnir fyrir jól eru eins og tveir til þrír mánuðir í veltu, og því mikið atriði að þeir heppnist vel, en með þessu sífellt takmarkaðra aðgengi bíla þá veltur það enn meira en áður á veðrinu. Ég býð ekki í það ef veðrið verður ekki gott á Þorláksmessu, því núna ætlar borgin að loka götunni ofar mun fyrr en áður. Hingað til hefur það verið svona klukkutíma fyrir friðargönguna, en það er svo skrýtið hve traffíkin og stemningin dettur niður þegar bílarnir eru farnir."

Sigurjón Örn Þórsson
Sigurjón Örn Þórsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

10% veltuaukning í Kringlunni í nóvember

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir jólaverslunina vera að dreifast meira yfir bæði nóvember og desember, en ekki sé útséð hvort desember haldi sínum hlut.

„Í nóvember jókst veltan hér milli ára um 10% og gestum fjölgaði um 3,4%. Gestafjöldinn hefur svo verið á pari við síðasta ár fyrstu tvær vikur desember. Það eru bæði stórir afsláttardagar eins og svarti föstudagurinn sem eru mjög vaxandi, sem og minni viðburðir sem eru að trekkja að, en upptakturinn er alltaf miðnætursprengjan okkar fyrsta fimmtudag í nóvember," segir Sigurjón.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .