*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 25. febrúar 2019 14:14

Fimmtungsamdráttur hagnaðar HS Veitna

Hagnaður HS Veitna nam 682 milljónum króna á síðasta ári á sama tíma og tekjurnar hækkuðu um 11% frá fyrra ári.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar HS Veitna eru á Reykjanesi.

Hagnaður SH Veitna nam 682 milljónum króna á síðasta ári, sem er lækkun hagnaðar um 19,6% frá árinu 2017, þegar hann nam 848 milljónum króna. Í fréttatilkynningu félagsins er lækkunin rakin til þess að afksriftir síðasta árs hafi verið 162 milljónum króna hærri en ella vegna endurmats sem og að breytt meðhöndlun tengigjalda hafi lækkað tekjur um 88 milljónir króna.

Tekjur félagsins hækkuðu um 10,9% ámilli ára, en rekstrartekjur félagins árið 2018 námu alls 6.925 milljónum króna. Þar af voru 3.726 milljónum vegna raforkudreifingar og flutnings, sem er hækkun frá 3.208 milljónum króna árið 2017, 2.131 milljón króna vegna sölu og dreifingar á heitu vatni, samanborið við 1.975 milljónir króna árið 2017 og 618 milljónum vegna sölu og dreifingar á fersku vatni, sem er lækkun frá árinu 2017 þegar tekjurnar af kalda vatninu nam 632 milljónum króna.

Loks hafi 451 milljón króna í tekjur komið af annarri starfsemi á síðasta ári, sem er aukning frá árinu 2017 þegar þær tekjur námu 429 milljónum króna. Kostnaðarverð félagsins af sölu hækkaði um 476 milljónir króna, eða 11,6% milli ára, en annar rekstrarkostnaður hækkaði um 108 milljónir króna, úr 708 milljónum árið 2017 í 816 milljónir króna árið 2018. Skýrir félagið þá hækkun með fjárfestingu í nýjum upplýsingakerfum og afskriftum rekstrarfjármuna um 45 milljónir króna.

EBITDA félagsins á árinu 2018 nam 2.456 milljónum króna, og var EBITDA hlutfallið 35,5%, en árið 2017 nam hlutfallið 34,6% og 2.160 milljónum króna. Í lok árs 2018 voru bókfærðir fastafjármunir félagsins metnir á 25.679 milljónir króna, sem er hækkun um 2.275 milljónir frá ársbyrjun.

Eigið fé félagsins við árslok nam svo 13.310 milljónum króna, sem er hækkun frá 12.638 milljónum í byrjun árs, en eiginfjárhlutfallið lækkaði á árinu úr 50,4% í 43,5%. Júlíus Jónsson er forstjori HS Veitna hf.

Stikkorð: HS Veitur ársreikningur hagnaður tekjur