Sala á nýjum fólksbílum í maímánuði jókst um 21,3% en nýskráðir fólksbílar á þessu tímabili voru 2.614 talsins á móti 2.155 í sama mánuði á síðasta ári. Nemur aukningin milli ára því 459 bifreiðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Þá hefur nýskráningum bíla fjölgað um 40,7% á fyrstu fjórum mánuðum ársins samanborið við sama tíma í fyrra, en samtals hafa 6.208 bifreiðar verið nýskráðar á þessu ári.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að jafn og góður stígandi sé í bílasölu enda sé endurnýjunarþörfin mikil. Meðalaldur fólksbíla sé 12,7 ár og þótt salan hafi verið góð á síðustu misserum sé enn nokkuð í land þar sem Íslendingar séu með þriðja elsta bílaflota í Evrópu.

„Hér á landi er meira en helmingur bíla eldri en 10 ára sem er ekki ásættanlegt og verðum við af því besta sem snýr að sparneytnum, umhverfisvænum og öruggum bílum,“ segir  Özur, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.