Gjaldþrotum fækkaði milli ára í nóvember um 18%, en samtals 45 fyrirtæki sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins voru tekin til gjaldþrotaskipta í mánuðinum að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Af fyrirtækjunum 45 voru 32 með virkni árið 2019, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 18% fækkun frá nóvember 2019.

Þar af voru 9 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 3 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, 9 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 11 í öðrum atvinnugreinum.

Ef fjöldi gjaldþrota yfir síðustu þrjá mánuði er skoðaður (september-nóvember) sést að fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta höfðu um 709 launamenn að jafnaði árið 2019. Þar af voru um 44%, eða 314 launamenn, í einkennandi greinum ferðaþjónustu.

Þetta er um 23% aukning frá fyrri meðalfjölda launamanna gjaldþrota fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustu í nóvember 2019 þegar þeir voru 292. Meðalfjöldi launafólks á fyrra ári, tekinn saman fyrir fyrirtæki í öðrum greinum sem lýst voru gjaldþrota á sama tímabili, var 395 og dróst saman um 23% frá fyrra ári.