Á milli áranna 2014 og 2016 hækkuðu laun þeirra sem hafa hæstu tekjurnar mest, hvort sem það á við hjá hinu opinbera eða einkageirans. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær eru heildarlaun að meðaltali langhæst hjá hinu opinbera eða um 35 þúsund krónum meira en gerist á almenna markaðnum.

Hæsta tíundin hækkaði um tæp 22%

Þegar skoðuð er hækkun launa á tímabilinu sést að mesti munurinn er á hækkun lægstu og hæstu launa hjá hinu opinbera, en þar hækkaði hæsta tekjutíundin um 174 þúsund krónur eða sem samsvarar 21,6%. Á sama tíma hækkuðu lægstu launin einungis um 62 þúsund krónur, eða um 18,5% að því er Fréttablaðið greinir frá.

Regluleg heildarlaun starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu að meðaltali um 86 þúsund krónur, eða úr 552 þúsund krónum í 638 þúsund krónur. Þar hækkaði hæsta tekjutíundin um 126 þúsund krónur, eða 14,8% meðan sú lægsta hækkaði um 55 þúsund krónur, eða 17,8%.

Laun embættismanna hækkað óeðlilega mikið

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir Kjararáð hafa hækkað laun æðstu embættismanna óeðlilega mikið á síðustu misserum og telur hann skýringuna á þessari þróun launa í hópi ríkisstarfsmanna fyrst og fremst liggja þar.

„[S]tórir hópar innan opinberra starfsmanna [vildu] fara prósentutöluleiðina,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ en „okkar upplegg í síðustu kjarasamningum [var] að hækka laun í krónum talið en um það náðist ekki sátt.“

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir þessar tölur sýna að prósentuhækkanir í komandi kjarasamningum sé leið ójöfnuðar. „Prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar í okkar þjóðfélagi“