Í júlímánuði námu heildarviðskipti í kauphöllinni rétt rúmum 30 milljörðum króna, og voru meðalviðskiptin á dag um 1.442 milljónir á dag. Er það 19% lækkun frá júnímánuði, þegar viðskiptin námu 1.771 milljón krónum á dag. Ef horft er á júlímánuð í fyrra eru viðskiptin þó 33% meiri en fyrir ári síðan. Kemur þetta fram í yfirliti frá kauphöllinni.

Mest viðskipti með Icelandair

Voru viðskipti með Icelandair Group langmest og námu þau 7.951 milljón króna. Námu viðskipti með bréf Marel 4.409 milljónum króna, N1 3.079 milljónum króna, Haga 3.042 milljónum og Reita fasteignafélags 1.872 milljón króna.

Í lok síðasta mánaðar voru 20 félög skráð á Aðalmarkað og Nastaq First North markaðinn á Íslandi, og nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 966 milljörðum króna, en í júní var það 990 milljarðar.

Í síðasta mánuði voru heildarviðskipti með skuldabréf 82 milljarðar en það samsvarar 3,9 milljarða króna veltu á dag. Er það 49% lækkun frá júnímánuði, en 41% lækkun miðað við fyrir ári.

Námu alls viðskipti með ríkisbréf 70,9 milljörðum, með íbúðabréf 4,1 milljarði og bankabréf 3,6 milljörðum.