Hluthafar bresku tískuvörufyrirtækisins Burberry hafa í dag horft upp á virði fjárfestar sinnar gufa upp eftir að stjórnendur þess gáfu út afkomuviðvörun í morgun vegna lélegrar afkomu. Gengi hlutabréfa Burberry hefur hrunið um tæp 20% á markaði og rúmlega einn milljarður punda af markaðsverðmæti fyrirtækisins orðið að engu. Þetta jafngildir tæpum 200 milljörðum íslenskra króna, einum áttunda af landsframleiðslu Íslands.

Reiknað var með því að hagnaður Burberry yrði á milli 407 til 455 milljónir punda. Hagnaður fyrirtækisins nam hins vegar 366 milljónum punda í fyrra, sem er 24% aukning á milli ára. Tekjur jukust um næstum fjórðung og námu þær 1,9 milljörðum punda.

Forstjóri fyrirtækisins, Angela Ahrendts, sagði í samtali við netútgáfu breska dagblaðsins Guardian, aðstæður í tískuheiminum erfiðar um þessar mundir.