Skiptum í 1,8 milljarða gjaldroti í búinu Aurláki ehf., sem var að öllu leiti í eigu Karls Wernerssonar athafnamanns, lauk 11. mars síðastliðinn.

Einungis greiddust rúmlega 346 milljón króna upp í lýstar kröfur, eða um 19,23%, en um er að ræða félag sem keypti lyfjaverslunina Lyf og heilsu af félaginu Milestone sem var í eigu Karls og bróður hans Steingríms Wernerssonar.

Eins og greint var frá í fréttum höfðaði þrotabú Milestone mál á hendur Aurláki vegna kaupanna á Lyf og heilsu og fleiri viðskipta. Var Aurláki gert að greiða Milestone tæpan milljarð króna í byrjun síðasta árs, en í sumar staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms um að bræðurnir þyrftu að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða auk vaxta.

Í byrjun árs 2016 dæmdi Hæstiréttur Karl Wernersson í þriggja og hálfs árs fangelsi vegna umboðssvika og bókhaldsbrots.

Daginn eftir var félagið Toska, sem nú er eigandi Lyf og heilsu í gegnum Faxa ehf. og Faxar ehf., komið í eigu Jóns Hilmars Karlssonar, sonar Karls Wernerssonar. Hagnaður Lyf og heilsu árið 2017 nam 283 milljónum króna , sem var aukning um 16% milli ára.