Fimmtungur fékkst upp í hærri kröfur sem gerðar voru í bú Kaupfélags Héraðsbúa (KHB) en nauðasamningar kaupfélagsins voru staðfestir í Héraðsdómi Austurlands í seinasta mánuði.

Þetta kemur fram á vef Austurgluggans en það bíður aðalfundar í vor að taka ákvörðun um framtíð félagsins sem er eignalaust. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður lagt til að félagið verði leyst upp og allri starfsemi hætt.   Fram kemur í frétt Austurgluggans að samkvæmt nauðasamningafrumvarpinu greiddust allar kröfur lægri en 100.000 en upp í hærri kröfur greiddust 21%.

„Greiðslur til kröfuhafa fóru fram í kjölfar staðfestingarinnar, þannig að nauðasamningum félagsins er þar með lokið,“ hefur Austurglugginn eftir Bjarna G. Björgvinssyni, lögmanni sem hafði yfirumsjón með gerð nauðasamninganna.

Þá kemur fram að kaupfélagið er enn til en það er eignalaust. Frekari framtíð þess ræðst á aðalfundi, sem verður haldinn þegar uppgjöri síðasta árs verður lokið, væntanlega í febrúar eða mars.

Fyrir tæpu ári síðan var greint frá því að Kaupfélag Héraðsbúa ætti í erfiðleikum og að fjárhagsstaða fyrirtækisins væri mjög erfið en gjaldþrot Malarvinnslunnar, dótturfélags KHB, í lok árs 2008 virðist hafa gengið mjög nærri fyrirtækinu og kostað það um 700 milljónir króna.

Kaupfélagið var stofnað fyrir hundrað árum og starfa vel á annað hundruð manns hjá því. Það rak verslanir á mörgum þéttbýlisstöðum á Austurlandi.