Með stækkun friðlands í Þjórsárverum og stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs á árinu sem er að líða er búið að friðlýsa 21,6% af flatarmáli Íslands.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri í friðlýsingateymi Umhverfisstofnunar, hafi reiknað út að alls sé raunheildarflatarmál friðlýstra svæða 22.233,3 ferkílómetrar. Heildarflatarmál Íslands er um, 103.000 ferkílómetrar.

Þá segir að upphaf friðlýsinga á Íslandi megi rekja til ársins 1928 þegar Þingvellir voru friðlýstir. Nokkur tími hafi liðið uns næsta skref var stigið en árið 1940 var Eldey friðlýst. Þá hafi mikilvægt skref verið stigið árið 1968 með stofnun Skaftafellsþjóðgarðs.

Áttundi áratugur síðustu aldar var drjúgur í friðlýsingum. 1973-1974 voru fjölmörg svæði friðlýst, s.s. Skútustaðagígar, Hvannalindir, Hólmanes, Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, Bláfjöll, Steðji, Eldborg, Herðubreiðarlindir, Húsafell, Mývatn og Laxá, Ingólfshöfði og Grótta. Næstu stökk eru þegar friðland að Fjallabaki var stofnað árið 1978 og Þjórsárver árið 1981. Árið 1984 var Skaftafellsþjóðgarður stækkaður úr 500 km2 í 1700 km2. Árið 1995 var Breiðafjörður verndaður með sérlögum sem telst mjög stórt skref. Árið 2004 var Skaftafellsþjóðgarður stækkaður aftur verulega. Ástæða dýfu sem sést á myndinni er að verndarsvæði Mývatns og Laxár var minnkað verulega, úr 4400 km2 í 152,89 km2.

„Síðasta stóra stökkið er árið 2008 þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður,“ er haft eftir Hildi.

Samhliða því að flatarmál jókst, fækkaði fjölda friðlýstra svæða því með stofnun þjóðgarðsins urðu þegar friðlýst svæði hluti hans, þ.e. Skaftafellsþjóðgarður, Esjufjöll, Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum og Askja.

Hildur segir ennfremur að flest stóru friðlýsingaskrefin sem hafi verið stigin á fyrri hluta tímabilsins séu í kringum náttúruverndarþing. Þá hafi mikið kapp verið lagt á að ljúka við friðlýsingar fyrir þing og eftir þegar fram komu nýjar tillögur að friðlýstum svæðum.