*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 15. september 2020 11:30

Fimmtungur kvenna notar Tik Tok

14% segjast nú nota kínverska samfélagsmiðilinn í nýrri könnun MMR en 0,2% fyrir ári. Karlar nota frekar YouTube og Reddit.

Ritstjórn
epa

Níu af hverjum tíu einstaklingum nota samfélagsmiðilinn Facebook reglulega og yfir helmingur notar YouTube, Snapchat, Spotify og Instagram. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 4. til 8. maí, en ekki var að finna marktækan mun á notkun þriggja vinsælustu samfélagsmiðlanna á milli ára en notkun á YouTube mældist í fyrsta skiptið meiri en Snapchat.

Marktæk aukning reyndist hins vegar á notkun Spotify og Instagram en aukningin var í báðum tilfellum 5 prósentustig frá 2019, meðan aukning á notkun Tik Tok nam 14 prósentustigum frá 2019 en aukning á notkun Reddit var 3 prósentustig frá síðustu könnun fyrir ári.

Mun fleiri konur en karlar nota Tiktok, eða fimmtungur kvenna á móti 9% karla, en munurinn er jafnvel meiri í notkun á Pinterest, eða 30% kvenna meðan 8% karla notuðu miðilinn.

Konur nota miðlana meira og meira

Alls kváðust 90% svarenda nota Facebook reglulega, 64% YouTube, 62% Snapchat, 57% Spotify og 55% Instagram. Athygli vekur að 14% svarenda kváðust nú nota Tik Tok reglulega en hlutfall reglulegra notenda forritsins reyndist einungis 0,2% í könnun síðasta árs.

Konur reyndust líklegri til að segjast nota helstu samfélagsmiðlana, en 97% þeirra nefndu Facbook, 70% Snapchat, 67% Instagram og 61% Spotify, meðan Karlar voru líklegri til að nota YouTube reglulega, eða 68% þeirra á móti 59% kvenna. Jafnframt notuðu fimmtungur karla Twitter, en 14% kvenna, og 12% karla notuðu Reddit en 6% kvenna.

Notkun kvenna á samfélagsmiðlum eykst jafnframt milli ára, um 3 prósentustig, þar á meðal á YouTube um 5 prósentustig, meðan notkun karla á þeim dróst saman um 7 prósentustig. Notkun kvenna á Spotify jókst um 11 prósentustig og 9 prósentustig á Instagram.

Yfir 80% yngstu nota YouTube

Regluleg notkun á Facebook reyndist mest meðal svarenda undir 50 ára aldri (93%) og fór hún minnkandi með auknum aldri. Svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast nota YouTube (84%), Snapchat (84%), Spotify (85%) og Instagram (77%) reglulega en notkun allra samfélagsmiðlanna fór minnkandi með auknum aldri.

Nokkur aukning reyndist á notkun yngsta aldurshópsins á YouTube (+6 prósentustig) og Spotify (+8 prósentustig) frá síðustu mælingu en notkun þeirra á Snapchat (-5 prósentustig) og Instagram (-2 prósentustig) mældist minni þetta árið heldur en í fyrra. Hins vegar var nokkra aukningu að sjá á notkun Instagram á meðal annarra aldurshópa, sér í lagi þeirra 30-49 ára (+11 prósentustig).

Þá reyndust svarendur af höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segjast nota YouTube (66%), Spotify (66%) og Instagram (64%) reglulega heldur en svarendur af landsbyggðinni en aukning var á notkun íbúa höfuðborgarsvæðisins á Spotify (+6 prósentustig) og Instagram (+6 prósentustig) á milli mælinga.

Stikkorð: Facebook MMR YouTube Instagram Pinterest Spotify samféalgsmiðlar Tik Tok