Í nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir hóp sem kannar möguleika á stofnun nýs stjórnmálaflokks kemur fram að 21,5 prósent aðspurðra telja það líklegt eða öruggt að þeir myndu kjósa Evrópusinnaðan flokk hægra megin við miðju. Er greint frá þessu í frétt Vísis .

Sextán prósent segja það hvorki líklegt né ólíklegt og 62,5 prósent segja það ólíklegt eða að þau myndu örugglega ekki kjósa flokkinn.

Í könnuninni var spurt: Ef fram kæmi nýtt framboð Evrópusinnaðs flokks hægra megin við miðju, hversu líklegt eða ólíklegt er að þú myndir greiða slíku framboði atkvæði þitt í alþingiskosningum ef kosið yrði til Alþingis í dag? Könnunin var unnin 3. til 10. apríl. Svarendur voru 1.667 og þar af tóku 1.378 afstöðu.

Haft er eftir Benedikt Jóhannessyni, sem tengist hópnum sem stendur að könnuninni, að niðurstöðurnar staðfesti að góður grundvöllur virðist fyrir frjálslyndum flokki sem leggi áherslu á markaðsviðskipti og vestræna samvinnu.