Financial Times birtir í dag frétt á vefsíðu sinni um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni og undirmönnum hans í bankanum. Var Sigurjón dæmdur í tólf mánaða fangelsi, en þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir.

Í fréttinni er fjallað um fangelsisrefsingu Sigurjóns og bent á að flest ríki heimsins hafi verið feimin við að sækja bankamenn til saka vegna þátts þeirra í fjármálahruninu, en Ísland sé hins vegar undantekning þar á. Er greint frá fangelsisdómum yfir Lárusi Welding, fyrrum bankastjóra Glitnis, Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, í því samhengi.

Er þó einnig bent á að sérstökum saksóknara hafi ekki gengið sem skyldi í mörgum málum. Eru þar nefnd önnur mál embættisins gegn Sigurjóni sem og Aurum-málið, þar sem allir sakborningar, þ.á.m. Jón Ásgeir Jóhannesson, voru sýknaðir af ákæru.

AFP fréttaveitan birti einnig frétt um dóminn nú í morgun.