Samkvæmt Bloomberg er hið sögufræga breska dagblað Financial Times til sölu, en blaðið er 127 ára gamalt.

Heimildarmenn Bloomberg segja að meðal áhugasamra kaupanda séu þýski útgefandinn Axel Springer og fjárfestar í Evrópu, Asíu og Mið-Austurlöndum. Er talið að söluvirðið gæti numið allt að 1,6 milljörðum Bandaríkjadala.

Pearson, sem er útgefandi blaðsins, hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort að blaðið verði selt eða ekki en hlustar vandlega á öll tilboð.

Financial Times kom fyrst út árið 1888 sem fjögurra blaðsíðna dagblað, en í fyrra náði það til 720.000 áskrifenda. Þar af eru 70 prósent áskrifendur í gegnum veraldarvefinn. Þykir FT vera einn allra virtasti miðill heims þegar kemur að fjármálum.