Financial Times birtir í dag umfjöllun sem ber saman ástandið á Íslandi í dag og í Hong Kong fyrir tæpum 10 árum. Í greininni er rifjað upp þegar spákaupmenn gerðu árás á Hong Kong-dollarann árið 1998, en gjaldmiðillinn var bundinn við bandaríska dalinn í gegnum myntráð.

Spákaupmenn settu þrýsting á myntráðið og knúðu hlutabréfamarkaðinn niður á við. Skortstöður í hlutabréfum og framvirkum samningum færðu þannig þeim þannig miklar fjárhæðir.

Pistlahöfundur veltir upp þeirri staðreynd hvort vogunarsjóðir og spákaupmenn séu að viðhafa svipaðar aðgerðir í dag. Sem kunnugt er hefur skuldatryggingaálag íslensku bankanna farið upp úr öllu valdi frá því í ágúst síðastliðinn, en þá var meðalálag íslensku bankanna í kringum 50 punkta. Fram kemur í grein Financial Times að skuldatryggingamarkaðurinn sé óskilvirkur og því sé auðvelt fyrir fáa aðila að skekkja eðlilega verðmyndun verulega.

Því næst er spurt hvort spákaupmenn freisti þess að setja þrýsting á skuldatryggingamarkaðinn til að hagnast á skortstöðum í íslenskum félögum, og ekki síst íslensku krónunni. „Íslenskir bankar standa sterkum fótum á alþjóðlegan mælikvarða," segir í greininni og ýjað að því einhvers konar árásir séu að eiga sér stað.

Að lokum er sagt frá því hvernig yfirvöld í Hong Kong brugðust við árið 1998. Þá ákváðu yfirvöld að koma með 15 milljarða dala innspýtingu á hlutabréfa markaðinn, sem nam þá um 8% heildarvirðis markaðarins. Auk þess var gefið til kynna að meira af slíkum aðgerðum mætti vænta ef ástandið myndi lítið breytast. Í kjölfarið rokhækkuðu hlutabréf og þeir sem voru með skortstöður í félögum í Hong Kong brenndu sig illa.

„Ef íslenska ríkisstjórnin er svo sannfærð um að fyrirtækin standi vel og að ástandið sé betra en haldið er fram, ætti ekki að íhuga svipaðar aðgerðir," er spurt í lok greinarinnar,  sem má lesa í heild hér.