Financial Times segir í dag frá sölu Glitnis á 500 milljóna dala víkjandi skuldabréfum (37 milljarðar króna) til bandarískra fjárfesta og að það dragi úr áhyggjum af aðgengi íslenskra banka að fjármagnsmörkuðum.

Bankinn þurfti hins vegar að greiða hærri vexti til fjárfesta en í fyrra. Glitnir sagði frá útgáfu 10 ára bréfa með áköllunarákvæði eftir fimm ár af hálfu Glitnis í gær.

Kjörin eru 175 punktar yfir ávöxtunarkröfu fimm ára bandarískra ríkisskuldabréfa, sem samsvarar 123 punktum yfir millibankavöxtum.

Mikil umframeftirspurn var eftir bréfunum og voru kaupendur að langstærstum hluta bandarískir stofnfjárfestar. Í frétt Financial Times segir ennfremur að umframeftirspurnin stangist á við áhyggjur manna af ofhitnum íslensks efnahagslífs.