Ef Íslendingar kjósa að hafna lögum um ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innstæðueigenda vegna Icesave setja þeir 10 milljarða dala lán frá IMF í hættu sem og mögulega inngöngu í Evrópusambandið.

Ef þeir hins vegar segja já, fá þeir bæði en sitja uppi með skuldabagga sem jafnast á við hálfa þjóðarframleiðslu auk 5,5% vaxta.

Þannig byrjar hinn þekkti LEX leiðari breska blaðsins Financial Times í dag en leiðarahöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að þetta virðist vera vonlaus staða fyrir Íslendinga (e. no-win situation.)

Leiðarahöfundur segir að margir breskir álitsgjafar hafi haldið því fram að Íslandi beri ekki að greiða þær háu upphæðir sem um ræðir.

„Myndu Bretar, svo dæmi sé tekið, kjósa sjálfir um að endurgreiða innstæður HSBC í Asíu að andvirði 400 milljarða Sterlingspunda ef við gefum okkur, umræðunnar vegna, að breskur banki hafi farið út í starfsemi fyrir austan‘“ spyr leiðarahöfundur.

Leiðarahöfundur segir þó að sem betur fer séu upphæðirnar ekki jafn háar og reiknað hafi verið með í fyrstu. Eignir Landsbankans hafi varðveist og virði þeirra sé um 90% skuldarinnar. Útreikningar leiðarahöfundar segja að Icesave reikningurinn verði um 440 milljónir punda árið 2025 miðað við andvirði eigna Landsbankans nú. Ef sölu eigna yrði frestað í fimm ár myndi upphæðin þrefaldast og svo koll af kolli.

„Skjót úrlausn Icesave deilunnar er því hagur allra,“ segir leiðarahöfundur sem segir það þó koma á móti að of hröð sala eigna auki hættuna á brunaútsölu. Þess vegna hafi Íslendingar krafist lægri vaxta gegn hraðari uppgreiðslu lánanna.

„Það er skynsamleg lausn sem allir aðilar ættu að geta sætt sig við,“ segir leiðarahöfundur að lokum.