„Stórum áfanga náð í skuldabréfaútboði íslensks banka,“ er fyrirsögn á umfjöllun Financial Times um skuldabréfaútboð Arion banka. Bankinn greindi í gær frá lokum skuldabréfaútboðs í norskum krónum sem jafngilti 11,2 milljörðum íslenskra króna.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur og fyrsta skrefið í þá átt að opna aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum,“ er haft eftir Höskuldi Ólafssyni bankastjóra í umfjölluninni. Höskuldur bætir við að mörg skref séu enn eftir í þá átt að gera alþjóðlega fjármagnsmarkaði aðgengilega fyrir íslensk fyrirtæki. Þetta telji hann þó mikilvægan áfanga í bataferli íslensks efnahagslífs.

Í grein Financial Times er farið yfir aðstæður í íslensku efnahagslífi og bent á að fjármagnshöft hafi mikil áhrif á fjármögnun og eignarhald íslenskra banka sem séu að miklu leyti í eigu erlendra kröfuhafa. Þá bendir blaðið á að formaður Sjálfstæðisflokksins, sem talinn sé líklegastur til að bera sigur úr býtum í komandi Alþingiskosningum, hafi nýverið hótað erlendum kröfuhöfum skertum hlut í eignarhlut sínum í bönkunum.