Norska viðskiptaritið Finansavisen ver talsverðu plássi undir það í dag hve rækilega Norðmenn hafi hagnast á innkomu Íslendinga í norskt fjármálalíf.

Fyrirsögn blaðsins er: Norðmenn rændu Íslendinga. Þar kemur fram að íslensk fjármálafyrirtæki hafi fjárfest fyrir 13 milljarða norskra króna fram til haustsins 2008 eða tæplega 290 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Í grein Finansavisen er sagt frá ofurlaunum norskra bankamanna sem græddu á tá og fingri á meðan á íslensku innrásinni stóð. Er sagt frá því að Kaupþing og Glitnir hafi greitt sýnu mest en Landsbankinn þó einnig greitt góð laun.

Þessi launasamningar hafi skapast vegna dýrar útþennslu íslensku bankanna sem vildu gjarnan kaupa til sín bestu mennina. Hæstu launin hafði Sveinung Hartvedt sem starfaði hjá Glitni en hann var með um 31,2 milljónir norskra króna í laun. Karl Otto Eidem var með 10,6 milljónir norskra í laun eða um 230 milljónir króna.