Fine Gael er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Írlandi. Samkvæmt nýjustu skoðunarkönnunum gæti flokkurinn náð meirihluta á írska þinginu.

Flokkurinn, sem er miðju- og hægriflokkur, hefur aukið fylgi sitt verulega samkvæmt könnunum. Kosningar á Írlandi fara fram 25 febrúar. Til að ná meirihluta í þinginu þarf 83 þingmenn en þingmenn eru alls 166.

Samkvæmt könnun dagblaðsins Sunday Business Post fengi Fine Gael 38% atkvæða, Verkamannaflokkurinn 20% og núverandi stjórnarflokkurinn Fianna Fail aðeins 15%. Kosningakerfið á Írlandi er mjög flókið og ef Fine Gael fengi 40% atkvæða er hugsanlegt að flokkurinn næði meirihluta á írska þinginu.

Samkvæmt frétt á mbl.is vill formaður Fine Gail, Enda Kenny, endurskoða lánasamning landsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Þar segir jafnframt að komist flokkur hans í ríkisstjórn,  þá muni hann kanna hvort og hvernig hægt verði að rifta samningi landsins við AGS og ESB.