Um þessar mundir er þess minnst að tíu ár eru liðin frá því að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins tóku ákvörðun um að nýr gjaldmiðill, evran, myndi líta dagsins ljós. Þrátt fyrir að ákvörðunin um upptöku evru hafi verið tekin árið 1998 var hún aðeins einn liður í áratugalöngu ferli sem snerist um að koma stöðugleika á gjaldeyrismálin samhliða pólitísku samrunaferli.

Þrátt fyrir að guðfeður Evrópusamrunans hafi verið meðvitaðir um það að efnahagslegur samruni víkkaði út og dýpkaði farveg mögulegs pólitísks samruna er lítið sagt um peningamál í Rómarsáttmálanum. Það skýrist af því að Vesturlönd, undir forystu Bandaríkjamanna, höfðu komið sér saman um hvernig gjaldeyrisskipan hins frjálsa heims ætti að vera á eftirstríðsárunum. Hins vegar komu snemma brestir í þá skipan og þeir urðu að frumhvatanum að ferlinu sem leiddi til stofnunar Myntbandalagsins. Til þess að leggja drög að alþjóðahagkerfi eftirstríðsáranna var haldin ráðstefna í smábænum Bretton-Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum árið 1944.

Fulltrúar frá helstu iðnríkjum heims tóku þátt og niðurstaðan varð Bretton Woods-kerfið svokallaða. Í stuttu máli fólst BW-kerfið í því að Bandaríkjadalur, einn gjaldmiðla, var útskiptanlegur fyrir gull á föstu gengi og aðrir gjaldmiðlar voru á föstu gengi gagnvart honum. Þótt hvert ríki gæti stýrt gjaldmiðlunum lítillega, var ekki leyfilegt að framkvæma verulegar gengisfellingar án samráðs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) sem var settur á laggirnar ásamt Alþjóðabankanum (World Bank) í tengslum við útfærsluna á kerfinu. Þessu kerfi var ætlað að sameina stöðugleikann sem fólst í gullfætinum ásamt því að skapa ákveðinn sveigjanleika fyrir ríki til þess að mæta tímabundnu ójafnvægi heima fyrir.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .