Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að viðmiðunartímabili við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði verði breytt þannig að miðað verði við meðaltal heildarlauna foreldris yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns í stað tveggja heilla tekjuára fyrir fæðingu barns í núverandi lögum.

Þó er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna foreldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar verði tekjuárið á undan fæðingarári barns. Er þetta lagt til í þeim tilgangi að jafna stöðu foreldra eftir því hvenær árs barn fæðist um leið, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti, og ásamt því að reyna á að koma í veg fyrir að foreldrar geti haft áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með því að hagræða tekjum sínum á viðmiðunartímabili.

Áfram er gert ráð fyrir að hafi foreldri ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skuli miða við meðalheildarlaun þess fyrir það tímabil sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði.

Eftirlit fært frá skattyfirvöldum

Lagt er til að eftirlit með framkvæmd laganna verði fært frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar en áfram er lögð áhersla á nána samvinnu milli Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda. Einkum er átt við að fylgst verði með því að foreldrar leggi sannanlega niður störf í fæðingarorlofi og að þeir hagnist ekki á greiðslum úr sjóðnum þannig að um viðbót sé að ræða við tekjur þeirra fyrir sama tímabil.