„Auðvitað er manni nokkuð brugðið því við að stöndum frammi fyrir því að hagkerfið er að dragast hratt saman og atvinnuleysi að aukast verulega.“ segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, um vaxtahækkun Seðlabankans.

„Hér er á ferðinni 50% hækkun stýrivöxtum og það mun augljóslega hafa mjög neikvæð áhrif á rekstur atvinnulífsins sem á nú þegar mjög undir högg að sækja. Ef við horfum framhjá verðbólgunni, sem er eingöngu tilkomin vegna veikingar á gengi krónunnar, þá er mikil undirliggjandi þörf fyrir vaxtalækkun til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný“, segir Bjarni Már.

„Þarna eru fingraför Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á ferðinni og augljóslega er verið að undirbúa það að setja krónuna á flot á ný. Það virðist vera eini mögulegi tilgangurinn að reyna verja krónuna falli og reyna styrkja stoðir hennar. Við eigum auðvitað mikið undir því að gengi krónunnar styrkist og við náum að hemja verðbólguna. Spurningin er bara sú hvort og þá hvernig atvinnulífið lifir á að lifa af í þessu vaxtaumhverfi. Allir standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um þessar mundir, líka Seðlabankinn. Ég vona bara að Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sjái fyrir afleiðingar þessarar vaxtaákvörðunar og hún sé upphafið af snöggri aðlögun að eðlilegu gengi krónunnar og hjöðnun verðbólgu. Úthald atvinnulífsins í þessu ástandi er ákaflega lítið“, segir Bjarni Már.