Frystitogarinn Blængur NK kom til Hafnarfjarðar í morgun og þar er verið að landa úr honum. Aflinn er um 18.000 kassar að verðmæti 150 milljónir króna.

Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir í viðtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að túrinn hafi gengið vel í alla staði.

„Þetta eru um 500 tonn af blönduðum afla. Mest er af grálúðu, ufsa, gullkarfa og djúpkarfa. Við byrjuðum túrinn fyrir austan en vorum síðan mest á suðvesturmiðum, frá Selvogsbanka og vestur í Skerjadýpi. Það var einmunablíða allan túrinn og ég hef varla upplifað aðra eins blíðu í veiðiferð. Gert er ráð fyrir að skipið haldi til veiða á ný síðdegis á morgun og þá verður stefnan tekin á Hampiðjutorgið fyrir vestan,“ segir Bjarni Ólafur.