Sex íslenskir leikmenn spila í rússnesku úrvalsdeildinni, þar af fjórir með Rostov og tveir með CSKA Moscow . Miðverðirnir Ragnar Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason, ásamt framherjunum Viðari Erni Kjartanssyni og Birni Bergmann Sigurðarsyni leika allir með Rostov . Ragnar Sigurðarson kom fyrst til Rússlands árið 2014 eftir farsælan feril með FC Köbenhavn og IFK Göteborg á Norðurlöndunum.

„Þeir strákar sem hafa farið hafa staðið sig vel og þá hafa þeir sótt fleiri Íslendinga. Þeir aðlagast vel og vilja vera þarna. Svo er peningurinn fínn líka. Rússar hafa sýnt okkur mestan áhuga af þessum stærri deildum,“ segir Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður hjá umboðsskrifstofunni Total Football .

Viðar Örn Kjartansson hefur gert það gott fjárhagslega eftir að hafa farið í atvinnumennsku í lok árs árið 2013. Hann hefur leikið í Noregi, Kína, Svíþjóð og Ísrael. Þá gekk Björn Bergmann Sigurðarson til liðs við Rostov fyrir ári frá Molde í Noregi en hann hefur einnig leikið með Lillestrom , Wolves og FC Köbenhavn .

Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson leika báðir með CSKA Moscow en hinn 25 ára gamli Hörður Björgvin hefur komið víða við á sínum ferli og meðal annars verið leikmaður Juventus , Spezia og Cesena á Ítalíu og Bristol City á Englandi. Arnór, sem er 19 ára, er hjá sínu öðru liði í atvinnumennsku en hefur þegar afrekað að skorað í sigri síns liðs á Real Madrid á heimavelli spænsku risanna.

Engin ein leið rétt

Leiðin sem leikmennirnir hafa farið í atvinnumennsku er ólík. Margir hafa farið út á unglingsárunum og byrjað með unglingaliðum í Evrópu á meðan aðrir hafa spilað lengur á Íslandi og hafa þá fengið tækifæri til að spreyta sig í meistaraflokki og leika í efstu deild.

Magnús Agnar segir það misjafnt hvað henti leikmönnum. „Það er engin ein leið sem hefur reynst vera réttari en önnur, hvort sem það er að fara ungur út í atvinnumennsku eða spila lengur á Íslandi. Það er ekki nein ein leið sem er öruggari til árangurs. Aðalatriðið er að mönnum líði vel og þá held ég að það séu meiri líkur á að þeir nái árangri,“ segir hann.

Magnús Agnar segir að tröppugangur sé í launum leikmanna. Þegar ungir leikmenn fari frá Íslandi í atvinnumennsku dugi launin almennt fyrir húsnæði og uppihaldi en ekki mikið meira en það. „Það fer eftir því hvernig þeir þróast og standa sig hvað verður úr á endanum. Einhverjir hafa staðið sig mjög vel og komist áfram. Þá annaðhvort fá þeir betri samning hjá núverandi félagi eða skipta um félag sem hefur meiri fjárráð.“

Allt árið að leita

Starf umboðsmannsins snýst um að hjálpa leikmönnum að gera það besta úr sínum ferli.

„Þetta snýst um að koma leikmanninum á framfæri og að hann hafi sem flesta möguleika þegar hann vill fara í eitthvert annað félag. Leikmaðurinn vill einbeita sér að því að spila fótbolta. Þó að félagaskiptaglugginn sé bara opinn tvisvar á ári þá er maður alltaf að tala við lið meðan á tímabili stendur,“ segir Magnús Agnar.

Hann segir að mörgu sé að huga fyrir lið áður en þau ákveða hvaða leikmenn þau kaupa enda oftar en ekki um stóra fjárfestingu að ræða. „Þegar lið eru að fá sér vinstri bakvörð sem dæmi spá þau kannski í tíu vinstri bakvörðum til að byrja með og svo fara þau niður í fimm. Þá skoða þau hvern er hægt að fá, hvað kostar hann, hefur hann áhuga á að koma, hvað er hann með í laun og svo framvegis. Þetta er eins og þegar þú ert að skoða fjárfestingu á borð við íbúð, það er betra að skoða tvisvar, þrisvar áður en maður tekur ákvörðun.“

Þá sé algengt að liðin heyri í gömlum liðsfélögum og þjálfurum eða samlöndum til spyrja út í leikmanninn áður en ákvörðun er tekin um að kaupa hann. „Er hann giftur, á hann börn, hefur hann farið í skóla, á hann foreldra, hefur hann meiðst mikið, af hverju fór hann úr þessu liði í þetta lið, hefur hann verið með mörgum konum, á hann börn út um allt, er hann mikið fyrir að fara í spilavíti og drekka? Svo skoða þau Twitter , Instagram og Facebook síðuna hjá leikmanninum,“ segir Magnús Agnar.

Fá mismikið fyrir launin

Magnús Agnar bendir á að töluverður munur sé hvað kosti að búa á hverjum stað sem hafi áhrif á hvað leikmenn fái fyrir launin sín. „Þó að leikmenn séu með sömu krónutölu getur greiðslubyrðin verið helmingi hærri á öðrum staðnum af því að fastur kostnaður er miklu hærri.“

Hafa þarf í huga að talsverður munur er á hve stór hluti launa er fastar greiðslur og hve mikið er í ýmsum aukagreiðslum. Víða geta bónusgreiðslur numið um helmingi af launum leikmanna. Algengt er að háar greiðslur fáist fyrir árangur í Evrópukeppni, auk þess sem leikmenn fá yfirleitt sérstaka greiðslu þegar þeir skrifa undir nýjan samning.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .