Engin loðna hefur sést eða veiðst á hefðbundnum loðnumiðum í tíu daga og eru sjómenn farnir að hafa áhyggjur. Nær öll íslensku loðnuskipin og tólf norsk skip lágu bundin við bryggju á Norður- og Austurlandi um helgina og eru þar enn. Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson er enn á Akureyri efir að skipið hætti loðnuleit í síðustu viku.

Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, tekur undir með sjómönnum um að eitthvað óvenjulegt sé að gerast. „Síðan fór að hlýna 1997 hefur loðnan verið að breyta dreifingunni. Sumardreifingin er miklu vestlægari og á haustin þá liggur hún miklu nær Grænlandi en hún gerir áður. En hún hefur alltaf skilað sér hingað til okkar,“ sagði Sveinn í samtali við hádegisfréttir Bylgjunnar .

„Það getur þýtt að hún kemur seinna og við höfum séð það. Þetta er svolítið breytilegt. En það er dálítið óvenjulegt að við séum ekki búin að við erum ekki bún að sjá neina verulega göngu á þessum tíma,“ sagði Sveinn.

Á Bylgjunni kom fram að  vegna fjárskorts Hafrannsóknarstofnunar er  ekki fjármagn til umfangsmikillar leitar þannig að það veltur á skipunum sjálfum að finna loðnuna og þá kemur Hafrannsóknarstofnun og mælir stærð torfunnar.