*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 19. október 2019 16:05

Finna uppfinningum farveg

Stanford þénaði yfir 5 milljarða á leyfissamningum fyrir uppfinningar innan hans á síðasta ári.

Júlíus Þór Halldórsson
Mona Wan – aðstoðarframkvæmdastjóri tækniyfirfærsluskrifstofu Stanford – kom til landsins á dögunum til að flytja erindi á Arctic Circle ráðstefnunni.
Gígja Einarsdóttir

Mona Wan er aðstoðarframkvæmdastjóri tækniyfirfærsluskrifstofu Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Hún sótti ráðstefnuna Arctic Circle hér á landi síðastliðna helgi, og gaf sér tíma fyrir stutt spjall við blaðamann.

Stanford er rannsóknarháskóli, og sem slíkur einbeitir hann sér sérstaklega að rannsóknum og fræðilegri kennslu. Út úr þeim rannsóknum koma iðulega uppgötvanir og uppfinningar, sem starfsfólk og nemendur leita til skrifstofu Wan með, sem kannar fýsileika þess að þróa þær áfram sem vörur eða þjónustu á markaði. Skólinn hafði yfir 5 milljarða króna í tekjur af nytjaleyfissamningum sem skrifstofan sá um á síðasta ári.

Um fjórðungur endar með samningi
Tækniyfirfærsluskrifstofa Stanford fær um 500 slíkar hugmyndir á ári, og telur um 45 starfsmenn. Af þessum 500 er sótt um einkaleyfi fyrir rúman helming og af þeim finnst aftur aðeins leyfishafi fyrir um helming. Það er því aðeins um fjórðungur þeirra hugmynda sem komið er með sem endar sem nytjaleyfissamningur. „Við finnum aldrei leyfishafa fyrir flestar okkar uppfinningar. Eftir að við ákveðum að sækja um einkaleyfi reynum við að skera úr um lífvænleika eins fljótt og auðið er. Ef við finnum ekki samstarfsaðila innan árs eða svo endurskoðum við ákvörðunina um að fjárfesta í einkaleyfisumsókn fyrir viðkomandi tækni eða hugmynd.“

Af þeim hugmyndum sem komast svo langt að fá leyfishafa segir Wan þó flestar koma út í plús fyrir stofnunina, þar sem farið sé fram á að þeir sem fá einkarétt á nytjaleyfi endurgreiði kostnaðinn við einkaleyfisferlið. „Við eyddum um 1,6 milljörðum króna í að sækja um einkaleyfi á síðasta ári, en fengum um milljarð af þeim til baka frá leyfishöfum. Rúmar 600 milljónir, eða um 38%, stóðu því eftir sem hreinn kostnaður.“

Fyrirtækin hætt að stunda rannsóknir
Wan segir háskóla í auknum mæli vera miðpunktur nýsköpunar í dag, þar sem stórfyrirtæki hafi meira og minna gefið langtíma rannsóknir – sem áður fyrr leiddu gjarnan til stofnunar sprotafyrirtækja – upp á bátinn. „Stóru lyfjafyrirtækin stunduðu sem dæmi alltaf miklar rannsóknir sjálf, og notuðu hugmyndir sem kviknuðu við þær til að þróa nýjar vörur. Í dag telja þau háskóla betur til þess fallna að sinna frumrannsóknum og koma með hugmyndir, sem þau taka síðan við og þróa áfram.“

Þau taki þó ekki alltaf við hugmyndunum beint úr skólunum, heldur kaupi oft sprotafyrirtæki sem stofnuð hafi verið í kringum hugmynd sem nemandi eða starfsmaður við skólann fékk. „Yfirtökur eru því orðnar helsta uppspretta nýsköpunar fyrir þessi fyrirtæki.“

Í desember síðastliðnum var stofnuð sams konar skrifstofa hér á landi, sem ber nafnið Auðna tæknitorg, en Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Auðnu, segir slíka starfsemi alveg hafa vantað á Íslandi hingað til. Auðna stóð fyrir pallborðsumræðum um tækniyfirfærslu á Norðurlöndunum á áðurnefndri Arctic Circle ráðstefnu, og Wan kom á hennar vegum og flutti þar erindi, en við það tækifæri var hrundið af stað formlegu samstarfi tækniyfirfærsluskrifstofa á Norðurlöndunum til að mæta áskorunum í loftslagsmálum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Stanford Mona Wan