Finnsk stjórnvöld hafa ákveðið að hætta tilraunum með borgaralaun í landinu og taka í staðinn upp strangari reglur um að atvinnulausir verði að vera virkir og finna sér eitthvað að gera innan þriggja mánaða annars missi þeir bætur.

Í byrjun síðasta árs völdu finnsk stjórnvöld 2.000 Finna á atvinnuleysisbótum af handahófi til að taka í tilraunaverkefni í ætt við það sem talað hefur verið fyrir víða um heim, sem og hér á landi, þá sérstaklega af þingmönnum Pírata.

Fengu Finnarnir 2.000 um andvirði um 70 þúsund íslenskra króna í borgaralaun, algerlega óháð því hvort þeir ynnu eða ekki, og var þá hugmyndin að þannig yrði ekki dregið úr hvata þeirra til að vinna með skerðingum á bótunum.

Þátttakendur voru valdir úr hópi langtímaatvinnulausra, en röksemdin var sú að atvinnuleysibætur væru svo háar og kerfið svo niðurnjörvað að fólk hafði áhyggjur af því að það myndi tapa á því að bæta við sig vinnu.

Verkefnið var hugsað til tveggja ára og var upphaflega áætlað að verkefnið yrði svo víkkað út til starfandi Finna, svo hægt væri að fá betri samanburð á áhrifum þess en nú hefur verið hætt við það.

Skerða atvinnuleysisbætur ef vinna ekki

Þvert á móti hafa finnsk stjórnvöld samþykkt lög sem skerða atvinnuleysisbætur þeirra sem ekki hafa fundið sér að minnsta kosti hlutastarf innan þriggja mánaða frá því að þeir missa starf að því er Miska Simanainen sem vinnur að rannsókninni fyrir Kela, sem er tryggingastofnun landsins.

„Núna eru stjórnvöld að gera breytingar sem færa kerfið enn lengra frá borgaralaunum,“ segir Simanainen. Samþykkti finnska þingið í lok síðasta árs að atvinnulausir þyrftu að vinna að minnsta kosti 18 tíma eða skrá sig í þjálfunarverkefni innan þriggja mánaða. Ef ekki yrði við því gætu þeir misst hluta af bótum sínum.

En Petteri Orpo fjármálaráðherra landsins stefnir að öðru tilraunaverkefni sem tæki við eftir að borgaralaunin leggjast af í lok árs endanlega.Vill hann taka upp kerfi svipað því sem er í Bretlandi þar sem allar helstu bætur og skattaafslættir fólks yrðu teknar saman í einn reikning að því er Business Insider segir frá.