Ríkisstjórnarsamtarf Finnlands gæti verið í uppnámi eftir að Finnaflokkurinn kaus nýjan formann í dag. Harðlínumaðurinn og Evrópuþingmaðurinn Jussi Halla-aho fékk 56% atkvæða í formannsslagnum og er óttast að þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarf, sem inniheldur Finnaflokkinn, gæti runnið sitt skeið í kjölfarið.

Halla-aho vill að Finnland yfirgefi ESB og sagðist hann ætla að krefjast þess að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórninni myndu herða innflytjendareglur. Hann vill þrýsta málefnum flokksins áfram í ríkisstjórnarsamstarfinu eða binda enda á það ef það gengur ekki upp. Finnaflokkurinn hét áður Sannir Finnar.

Sameiningarflokkurinn, annar hinna tveggja flokkanna í ríkisstjórn, segist ekki endilega vilja starfa með Halla-aho, sem var sektaður af Hæstarétti Finnlands árið 2012 fyrir ummæli í bloggfærslu sem tengdu íslam við barnagirnd og Sómali við þjófnað. Fjármálaráðherrann Petteri Orpo segir að Finnaflokkurinn sé ekki lengur sami flokkur í kjölfar formannsskiptanna.

Forsætisráðherrann Juha Sipila úr Miðjuflokknum gæti þurft að leita til annarra flokka til að stofna ríkisstjórn. Það gæti orðið til þess að áform hans um umbreytingu á heilbrigðiskerfinu verði ekki að veruleika. Sipila mun funda með Halla-aho á mánudag.

Eftir að Finnaflokkurinn varð næst stærsti flokkurinn á finnska þinginu dró hann úr þjóðernishyggju sinni og andstæðu gegn Evrópusambandinu. Í kjölfarið hrundi fylgi flokksins úr 17,7% niður í 9% í skoðanakönnun í þessum mánuði. Nú virðist flokkurinn ætla að færast í sömu átt og Sannir Finnar voru á sínum tíma, harðari gagnvart innflytjendum og mótfallnari ESB.