Finnska ríkið hrindir nú í framkvæmd nokkuð róttækri hugmynd, það er að veita 2 þúsund ríkisborgurum grunnlaun, burtséð frá því hvort að einstaklingarnir séu í vinnu eður ei. Frá þessu er greint í frétt CNN .

Tilraunin hefst í þessum mánuði - en hún hefur verið kölluð fyrsta alvöru tilraunin til svokallaðra „borgaralauna“ - þar sem að einstaklingum er borguð ákveðin mánaðarleg upphæð sama hvort þeir séu í vinnu eða ekki.

Finnarnir sem taka þátt í tilrauninni hljóta 560 evrur mánaðarlega eða því sem jafngildir tæplega 68 þúsund krónum, burtséð frá stéttarstöðu, tekjum eða öðrum breytum sem gætu haft áhrif. Launin sem að greidd eru út verða ekki skattlögð.

Tilraunatíminn er til tveggja ára til að byrja með og þátttakendur í tilrauninni eru valdir af handahófi, en eiga það þó allir sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti hlotið einhvers konar bætur. Ef að tilraunin gengur vel er möguleiki á því að allir Finnar hljóta borgaralaun.

Finnska ríkisstjórnin hefur fært rök fyrir því að borgaralaunin gætu sparað til lengri tíma með því að einfalda velferðarkerfið. Einnig hefur það verið nefnt að atvinnulausir gætu verið líklegri að vinna - án þess að bætur frá ríkinu yrðu skertar.

Ísland nefnt sem dæmi

Í frétt CNN er tekið fram að hugmyndin um borgaralaun hafi einnig verið rædd hérlendis. Píratar hafa til að mynda velt upp hugmyndinni um borgaralaun og lagði flokkurinn meðal annars fram þingsályktunartillögu um málið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur ekki vel í hugmyndina, og kallaði borgaralaun „ það alvitlausasta sem að hann hafi heyrt .“

Fyrr á þessu ári kusu Svisslendingar um borgaralaun, en þá hefði fjárhæðin sem hver einstaklingur hefði hlotið numið 325 þúsund krónur. Þeirri hugmynd var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní. Yfir 75% af svissneskum almenningi voru andvígir hugmyndinni.