Stjórnvöld í Finnlandi hafa fengið samþykkt Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að tryggja innistæður viðskiptavina Kaupþing í Finnlandi.

Allar innistæður viðskiptavina Kaupþings í Finnlandi voru frystar í kjölfar hruns bankanna hér á landi. Finnsk stjórnvöld ákváðu að tryggja allar innistæður þar í landi til að viðhalda trausti á bankakerfi landsins eins og fram kom í yfirlýsingu stjórnvalda.

Þó var talið að sú aðgerð gæti stangast á við samkeppnislög Evrópusambandsins og var því leitað álits hjá Framkvæmdastjórninni. Framkvæmdastjórnin sagðist geta fallist á að finnska ríkið ábyrgðist skuldbindingar bankanna í þessu tilfelli til að koma í veg fyrir alvarlegt uppnám í finnska hagkerfinu.

Það að tryggja innistæður kemur í veg fyrir mögulega málsókn helstu lánadrottna Kaupþings á hendur finnskum bönkum á borð við Nordea Bank, Ph-Pohjola og Sampo.

Finnsk stjórnvöld munu í kjölfarið tryggja allar innistæður viðskiptavina bankanna.