*

laugardagur, 11. júlí 2020
Erlent 7. desember 2015 11:06

Finnar velta fyrir sér borgaralaunum

Hver og einn ríkisþegn fengi 112 þúsund krónur á hverjum mánuði frá ríkinu.

Ritstjórn
epa

Finnska ríkisstjórnin dregur nú upp áætlanir að innleiðingu borgaralaunakerfis. Ef allt gengur eftir mun hver og einn Finni fá rúmlega 112 þúsund krónur í borgaralaun frá ríkinu á hverjum mánuði. Frá þessu er sagt á vef Quartz.

Upphæðin nemur 1,34 milljónum króna á hverju ári. Meðallaun á mánuði eftir skatta í Finnlandi eru í kringum 347 þúsund krónur, sem þýðir að tekjuaukningin gerði eflaust mikinn mun fyrir marga.

Hugmyndin er lögð fram í þeim tilgangi að draga úr atvinnuleysi, sem hefur ekki verið hærra síðustu 15 árin í Finnlandi - rétt rúmlega 9,5%. Skilyrðislaus borgaralaun gætu auðveldað fólki að starfa við láglaunastarf, en núverandi kerfi Finna virkar þannig að takirðu þér starf lækkar upphæðin sem ríkið veitir þér mánaðarlega.

Finnar eru rúmlega 5,5 milljónir og borgaralaunakerfið mun að öllum líkindum kosta finnska ríkið ríflega 46,7 milljarða evra á ári hverju. Til hliðsjónar ber að nefna að tekjur ríkisins nema einhverjum 49 milljörðum evra.

Áætlunin gerir ráð fyrir að gera alfarið út af við núverandi velferðarkerfi. Lokaniðurstaða verður ekki kynnt fyrir þinginu fyrr en í nóvember næsta árs.

Stikkorð: Atvinnuleysi Finnland Borgaralaun Hagfræði Ríki