Finnbogi Baldvinsson forstjóri Pickenpack hefur verið ráðinn forstjóri Icelandic Europe. Finnbogi hefur áralanga reynslu í sjávarútvegi og hefur starfað í Þýskalandi sl 10 ár. Hann hefur á þeim tíma meðal annars leitt útrás Samherja á alþjóðavísu. Eins og kynnt var á hluthafafundi Icelandic Group þann 24. október sl. hefur starfsemi samstæðunnar verið skipt upp í tvær einingar, Icelandic USA / ASIA og Icelandic Europe.

"Fjárfestingin er í samræmi við þá stefnu Icelandic Group að vera leiðandi í framleiðslu- og sölu sjávarafurða í heiminum. Með kaupunum hefur starfsemi Icelandic Group eflst til muna í Evrópu og eru þar mikil samlegðartækifæri. Finnbogi Baldvinsson hefur gríðarlega reynslu úr alþjóðlegum viðskiptum með sjávarafurðir og hefur á undanförnum árum náð mjög góðum árangri í rekstri Pickenpack. Það er mikill fengur fyrir Icelandic Group að hafa fengið Finnboga til að leiða starfsemi félagsins í Evrópu.

Með kaupunum fær Icelandic Group til liðs við sig nýja kjölfestufjárfesta sem um langt árabil hafa verið leiðandi í alþjóðlegum sjávarútvegi," segir
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Icelandic Group í tilkynningu félagsins.

?Í starfi mínu hjá Pickenpack hef ég kynnst því að Icelandic Group rekur gríðarlega öfluga markaðs- og sölustarfsemi í Evrópu. Jafnframt er innkaupakraftur samstæðunnar mjög mikill. Með því að sameina krafta okkar skapast tækifæri til að eflast til muna og bæta arðsemi. Ég hlakka mikið til að vinna með því frábæra fólki sem er hjá Icelandic Group og er sannfærður um að samstarf okkar muni verða árangursríkt," segir Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Europe.

?Samherji er stór viðskiptavinur Icelandic Group. Þær breytingar sem orðið hafa á Icelandic að undanförnu eru áhugaverðar og við hjá Samherja erum sammála þeirri stefnu sem Icelandic Group hefur tekið. Því ákváðum við að tengjast félaginu með þessum hætti. Í framtíðinni er líkur á að samstarf félaganna aukist enn frekar," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í tilkynningu til Kauphallarinnar.