*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 24. nóvember 2011 09:45

Finnbogi Jónsson: Fjögur félög á markað á næstu 2-3 árum

Segir mikilvægt að skráð félög greiði út arð. Nær allt núverandi eignasafn Framtakssjóðsins skráð á markað árið 2014.

Gísli Freyr Valdórsson
Gísli Freyr Valdórsson

Framtakssjóður Íslands  stefnir að því að skrá fjögur rekstrarfélög í eigu sjóðsins á markað innan 2-3 ára. Þetta eru Icelandic Group, Skýrr, N1 og Promens.

Þetta sagði Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi.

Finnbogi fór yfir rekstur, tilgang og eignarhluti Framtakssjóðsins á fundinum. Hann sagðist vona að hægt væri að skrá fyrrnefnd félög á markað þegar endurskipulagningu þeirra er lokið. Hann sagði að í ljósi reynslunnar með Icelandair Group, þar sem nú væri virk hreyfing með bréf félagsins, væri fullt tilefni til að skrá þessi félög.

Ýmist er stefnt að skráningu félaganna haustið 2012 eða um mitt ár 2013. Gangi áætlanir Framtakssjóðsins eftir verða um 88% af núverandi eignasafni sjóðsins skráð á markað árið 2014.

Þá sagði Finnbogi, og lagði áherslu á orð sín, að skráð fyrirtæki verði að greiða hluthöfum arð og hafa skýra arðgreiðslustefnu ætli menn sér að byggja upp traust á markaðnum. Hann sagði að ekki gengi upp að hluthafar veðjuðu eingöngu á hækkun hlutabréfa, hinn almenni hluthafi ætti að fá greiddan arð út úr góðum rekstrarfélögum.