Finnbogi Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), hætti störfum hjá sjóðnum í byrjun janúar í kjölfar töluverðrar óánægju meðal eigenda sjóðsins með störf hans. Krafa var um að Finnboga yrði sagt upp störfum og í kjölfarið ákvað hann sjálfur að segja starfi sínu lausu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í fréttaskýringu í blaðinu segir að höfnun á tilboði Triton í Icelandic Group, ráðning Lárusar Ásgeirssonar sem forstjóra Icelandic og kaup sjóðsins í N1 hefðu verið meðal þeirra mála sem ollu óánægju.

Í samtölum Viðskiptablaðsins við ýmsa stjórnarmenn og stjórnendur lífeyrissjóða hefur verið mikill þrýstingur frá samkeppnisaðilum fyrirtækja sem Framtakssjóðurinn hefur fjárfest í um aðkomu lífeyrissjóða að þeim rekstri. Finnst fulltrúum þessara fyrirtækja eða atvinnugreina lífeyrissjóðirnir, sem allir taka þátt í að greiða til, séu að mismuna fyrirtækjum.