Ný stjórn Advania, áður Skýrr, var skipuð á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dag. Aðalmenn eru þau Anna Rún Ingvarsdóttir, Einar Páll Tamimi, Finnbogi Jónsson, Skúli Mogensen og Þór Hauksson. Varastjórn skipa Erna Eiríksdóttir og Egill Tryggvason. Nýr stjórnarformaður er Finnbogi Jónsson. Hann tekur við af Þorsteini G. Gunnarssyni.

Þeir skúli og Egill eru nýir í stjórn félagsins. Ásamt Þorsteini hættir Gísli Hjálmtýrsson í stjórninni. Aðaleigandi Advania er Framtakssjóður Íslands með um 75% eignarhlut. Aðrir hluthafar eru liðlega 40 talsins. Þeirra stærstur er Títan, félag Skúla Mogensen, sem á um 5% hlut í Advania.

Í tilkynningu um nýja stjórn Advania kemur eftirfarandi fram um stjórnarmenn:

Anna Rún Ingvarsdóttir (1968)
Anna Rún er viðskiptafræðingur og starfar sem fjármálastjóri Apple VAD á Íslandi. Áður var hún meðal annars fjármálastjóri Almennu verkfræðistofunnar og Humac. Egill Tryggvason (1969) Egill starfar hjá Framtakssjóði Íslands. Hann vann áður sem sérfræðingur hjá Burðarási, Straumi fjárfestingarbanka, Landsbanka Íslands, Virðingu verðbréfafyrirtæki og fjármálaráðuneytinu.

Einar Páll Tamimi (1969)
Einar Páll er eigandi Nordik lögfræðiþjónustu og starfar þar sem lögmaður. Hann vann áður hjá skrifstofu EFTA í Brussel, lagadeild HR, var yfirlögfræðingur Íslandsbanka/Glitnis og Málflutningi og ráðgjöf.

Erna Eiríksdóttir (1963)
Erna hefur starfað sem fjármálastjóri Landsvirkjunar Power, dótturfélags Landsvirkjunar, frá árinu 2008. Hún starfaði áður hjá Eimskip um 15 ára skeið.

Finnbogi Jónsson (1950)
Finnbogi er stjórnarformaður Advania hf. Hann er fráfarandi framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands og stýrði áður meðal annars SR Mjöli og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Skúli Mogensen (1968)
Skúli er eigandi fjárfestingafélagsins Títan, sem er meðal stærstu hluthafa Advania. Á meðal annarra fyrirtækja sem Títan hefur fjárfest í eru MP banki, WOW air, CRI, Securitas, CAOZ og DataMarket.

Þór Hauksson (1972)
Þór starfar hjá Framtakssjóði Íslands. Hann vann áður sem sérfræðingur hjá Skiptum, Straumi fjárfestingarbanka, eignastýringarsviði Kaupþings og fjármálaráðuneytinu.