Finnfund, þróunarfélag í eigu finnska ríkisins, hefur veitt 2,4 milljóna evra eða 354 milljóna króna lán til Creditinfo Group til uppbyggingar á fjármálaþjónustu og hagvexti í Austur-Afríku.

Lánið frá Finnfund mun gera Creditinfo Group kleift að hraða uppvexti fyrirtækisins í álfunni sem hefur það að markmiði að bjóða upp á fjármálalausnir í löndum sem hafa takmarkað aðgengi að fjármagni. Þá veitir fyrirtækið einnig stuðning við lánveitendur svo þeir geti tekið upplýstari ákvarðanir varðandi lánveitingar og fjármálaþjónustu til breiðari hóps viðskiptavina.

„Samstarfið við Finnfund er mjög mikilvægt fyrir Creditinfo Group. Frá því að fjármálakreppan reið yfir árið 2008 hafa íslensk fyrirtæki átt í nokkrum erfiðleikum með að taka lán erlendis. Þessi lánveiting Finnfund er vísbending um að það sé að breytast, fyrir okkur alla vega,“ segir Reynir Grétarsson, forstjóri Creditinfo Group.

„Við trúum því að okkar litla framlag til þróunar innviða ýmissa landa eins og í Austur-Afríku hafi orðið til að bæta hag íbúanna. Við viljum aðstoða fólk og smærri fyrirtæki við að fá aðgang að fjármagni í þeim tilgangi að bæta hagvöxt og lífskjör,“ segir Reynir.