Finnska ríkið segist ekki muna láta eftir 55,8% hlut sinn í flugfélaginu Finnair, þrátt fyrir að FL Group, sem er einn stærsti hluthafinn, telji að óeðlilegt sé að ríkið eigi svo stóran hlut, segir í frétt Reuters.

Viðskipta- og fjármálaráðherra Finnlands, Mauri Pekkarinen, segir að ríkið muni ekki selja hluti sína í mikilvægum félögum á borð við Finnair, orkufyrirtækjum á borð við Fortum og Neste Oil né ríkissjónarpinu YLE. Pekkarinen segir að ríkið eigi sum fyrirtækjanna að fullu og yfir 50% hlut í öðrum og að á því verði engin breyting, að minnsta kosti ekki í þessari stjórnartíð. Næstu þingkosningar verða í mars næstkomandi.

FL Group jók hlut sinn í 22,4% í desember og greindi finnska viðskiptablaðið Kauppalethi Presso frá því að FL Group hefði áhuga á að koma manni í stjórn flugfélagsins.

Í samtali við blaðið sagði Hannes Smárason, forstjóri FL Group: "Ég tel að finnska ríkið ætti að selja hlut sinn í Finnair. Nú til dags er svona stór eignarhluti í eigu ríkisins umdeildur, sérstaklega þar sem Finnair er skráð félag. Áhugi fjárfesta á Finnair myndi aukast ef ríkið minnkaði eignarhlutinn."