Martti Kellokumpu, finnskur hönnuður og fyrrverandi atvinnumaður á skíðum, hefur verið ráðinn yfirhönnuður íslenska fatafyrirtækisins ZO•ON.

Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu ríkir mikil ánægja í höfuðstöðvum ZO•ON en hafi Martti gefið sér gott orð víða um heim sem hönnuður og þekki á eigin skinni mikilvægi góðs hlífðar- og útivistarfatnaðar. Martti verður hluti af framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Eftir að hafa unnið ótal afrek í skíðaíþróttinni, þar á meðal heimsbikarinn árið 1987 í hólasvigi, útskrifaðist Martti sem fatahönnuður frá Listaháskólanum í Helsinki. Í seinni tíð hefur hann tekið að sér kennslu í skólanum með áherslu á hönnun á útivistarfatnaði.

Martti var árið 1994 fyrsti hönnuðurinn sem ráðinn var til ZO•ON og var samstarfið að sögn bæði gott og farsælt. Stuttu eftir aldamót var Martti ráðinn hönnuður og síðar yfirhönnuður fyrirtækisins Halti sem er leiðandi í hönnun á útivistar- og skíðafatnaði í Finnlandi. Hann hefur einnig hannað fyrir fjölda fyrirtækja víða um heim og meðal annars hannað fatnað ólympíuliðs Finna undanfarin ár. Þá hlaut Martti hin virtu verðlaun „Fatahönnuður ársins“ í Finnlandi árið 2006. Martti snýr nú aftur til ZO•ON reynslunni ríkari og mun að sögn fyrirtækisins reynast því mikill hvalreki.