„Ef ég á að segja eins og er, þá hef ég aldrei orðið vitni að viðlíkri foringjadýrkun sem virðist vera hjá mjög fámennum en duglegum hópi innan Framsóknarflokksins,” segir Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins í viðtali við Fréttablaðið.

Miðstjórnarfundur Framsóknar var haldinn á laugardag og segir Höskuldur að þar hafi orðið ljóst að töluverð undiralda sé í flokknum - hörð gagnrýni hafi komið fram í garð formanns flokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Höskuldur segist hafa miklar áhyggjur af flokknum. Að hans mati þarf flokkurinn að ákveða hvort umræðuefnin í næstu kosningabaráttu muni snúast um Panamaskjölin eða góð mál, framtíðina og það sem vel hefur gengið.

Þá meinar Höskuldur eflaust að flokkurinn þurfi að ákveða hvort Sigmundur Davíð formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra eigi að vera í farabroddi fyrir stjórnmálaflokkinn þegar kemur að næstu kosningum.