Íslensk stjórnvöld hafa heykst á því að lýsa stuðningi við Færeyjar í deilu þeirra við Evrópusambandið um sameiginlegan síldarkvóta. Þetta segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, í aðsendri grein í Fiskifréttum í dag.

Arthur bendir á að Færeyjar séu eina þjóð veraldar sem hafi sýnt og sannað að hún sé vinaþjóð í raun. Þess vegna sé honum sem íslenskum ríkisborgara gróflega misboðið. Hann sé að reyna að finna skýringar á því hvers vegna Íslendingar styðji ekki betur við bakið á Færeyingum. Það hafi aldrei vafist fyrir Færeyingum að styðja Íslendinga.

Arthúr getur sér til um það hvers vegna Íslendingar styðji ekki betur við Færeyinga. „Svo vill til að Færeyingar lýstu því nýverið og einhliða yfir að þeir ætli sér að veiða hærra hlutfall af síldarkvótanum en undanfarin ár. Ekki 5%, heldur 17%. Á þessa ákvörðun er litið með mikilli vanþóknun af ónefndum íslenskum hagsmunasamtökum í útgerð- og væntanlega íslenskum stjórnvöldum,“ segir Arthur.