*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 16. maí 2020 12:01

„FinnTech“ fram undan hjá Högum?

Ráðning Finns Oddssonar sem forstjóra Haga er til marks um kaflaskil hjá stærsta smásölufyrirtæki landsins.

Ingvar Haraldsson
Finnur Oddsson tekur við sem forstjóri Haga í sumar.
Haraldur Guðjónsson

Ráðning Finns Oddssonar sem forstjóra Haga er til marks um kaflaskil hjá stærsta smásölufyrirtæki landsins með aukinni áherslu á netvæðingu og upplýsingatækni. Í tilkynningu sem Hagar sendu frá sér við ráðninguna sögðu bæði Finnur og Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga, að nýir tímar væru í verslun vegna tækniframfara og breyttrar hegðunar neytenda.

Finnur hefur verið forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Origo frá árinu 2013.

Segja má að tímabili í smásölu sé að ljúka sem hófst á sama tíma og Costco hóf innreið sína á Íslandi árið 2017. Í kjölfarið  runnu stærstu olíufélög  og matvörukeðjur landsins saman. Hagar keyptu Olís og N1 keypti Festi, sem rekur meðal annars Krónuna og Elko. Þá tók Skeljungur yfir Basko á síðasta ári sem á meðal annars 10-11. Skeljungur á einnig þriðjungshlut í Wedo sem rekur meðal annars Heimkaup og Hópkaup en það félag tapaði 500 milljóum króna í fyrra.

Greint var frá starfslokum Finns Árnasonar, fráfarandi forstjóra, og Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónus, fyrir tveimur vikum. Þá sagði Finnur Árnason þetta góðan tíma til að stíga til hliðar, þar sem fyrsta heila rekstrarári eftir kaup Haga á Olís væri að ljúka. Þeir hafa báðir verið framkvæmdastjórar hjá Högum frá árinu 1998.

Netverslun hefur verið í sókn í heimsfaraldrinum sem nú geisar, bæði hér á landi og erlendis. Hagkaup, sem er innan samstæðu Haga, opnaði netverslun á ný í byrjun apríl. Hagkaup hefur rekið netverslun með hléum allt frá árinu 1998. Þær tilraunir hafa hingað til endað með því að netverslunin hefur verið lögð niður þar sem hún hefur ekki staðið undir sér.

Sjá einnig: Krónan á netið en Bónus ekki

Krónan vinnur að prófun á eigin netverslun. Bónus, flaggskip Haga, hyggst hins vegar ekki gera það. Guðmundur Marteinsson sagði við Viðskiptablaðið í apríl, að slíkt hefði reglulega verið skoðað. Niðurstaðan hafi alltaf verið að það gengi ekki upp þar sem áhersla Bónuss væri á að lágmarka kostnað og vöruverð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér