,,Við erum mjög bjartsýn og finnum fyrir miklum samhug þjóðarinnar gagnvart björgunarsveitunum," segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, aðspurður um hvernig sala flugelda fari í gang.

,,Þetta er fyrsti dagurinn og það gerist lang mest á endasprettinum. Menn eru að koma sér í startholur og að gera allt klárt," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Kristinn segist vera var við sérstaklega mikinn stuðning fólks við björgunarsveitirnar og gefur lítið fyrir umræðu um að fólk eigi að spara í flugeldakaupum þetta árið, vegna efnahagsástandsins. Hann telur fólk eiga að einbeita sér að skera niður annars staðar frekar; til dæmis keyra minna, eða draga úr áfengiskaupum.

,,Við erum að vonast til að auka markaðshlutdeild okkar í ljósi samhugs þjóðarinnar, þannig að það verði fleiri sem kaupi flugelda af björgunarsveitunum en áður," segir hann.