Stefna stjórnvalda í verðlags- og innflutningsmálum þegar skortur var á kjöti í verslunum síðasta sumar kostar neytendur 7,6 milljarða króna. Þetta er mat Finns Árnasonar, forstjóra Haga.

Finnur fór yfir kjötskortinn á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun. Hann gagnrýndi landbúnaðarráðherra fyrir að leyfa ekki innflutning á kjöti nema að takmörkuðu leyti og með himinháum tollum þegar skortur var á lamba-, kjúklinga- og nautakjöti.

Sérstaklega átaldi Finnur viðbrögð landbúnaðarráðuneytis þegar verslanir, þar á meðal Hagar, greindu frá kjötskorti á markaðnum. Þá hafi starfsfólk ráðuneytisins farið sjálfir út í búð og séð þar kjöt. Ályktuðu þeir svo að nóg hafi verið til af kjöti og að verslunin hafi farið með rangt mál.

Finnur benti á að verð frá þeim fáu afurðastöðvum sem seldu kjöt til verslana hafi hækkað það mikið, að meðaltali um 28%. Þar af hafi verð á nautakjöti hækkað mest, um 44%.

Ofurtollar og takmarkanir á innflutningi á kjötvörum þegar skortur ríkti hér skilaði sér út í verðlag og vísitölur og hækkaði skuldir heimilanna um 7,6 milljarða króna, að sögn Finns.